Bústofn og meðhöndlun

Á Möðrudal á Fjöllum eru 100 fjár og 40 geitur á vetrarfóðrun. Að vetrarlagi eru eingöngu fóðrað með rúlluheyi en aðeins kolmunamjöl gefið með á sauðburði. Uppruni fjárstofnsins er frá Möðrudal en kynbætt hefur verið með hrútum frá Vestfjörðum, Þistilfirði og Öxarfirði.

Hefð er fyrir geitabúskap í Möðrudal á árum áður og er þaðan sprottin áhugi okkar á að viðahalda geitarækt hér á Fjöllum, auk þess sem geiturnar setja líflegan svip á búskapinn. Uppruni geitanna í Möðrudal er gamli stofninn sem var hér áður með kynbótum frá Fjallalækjaseli. Kjörlendi er hér gott fyrir geitur sumarlangt þar sem þær spranga um í klettum, hellum og skútum rétt vestan við bæinn í ævintýralegu landslagi Kjalfellsins. Þar er gróðurfar þeim að skapi og þær ná að halda sínu villta eðli.

Við leggjum áherslu á náttúrulegt heilbrigði bústofnsins þar sem lyfjagjöf er í lágmarki og bólusettningar engar.
Búfénaður nærist á  hálendisgróðri sem inniheldur sérlega kröftug grös og lyngmóa.
Fyrir slátrun fara lömbin beint af villtum úthaga í sláturhús.
Ræktunarstefnan miðar að stóru og vöðvafylltu fé. Meðalþyngdin á lambaskrokkum fyrir 2011 var 22 kg.

 

Líkt og tíðkaðist hér í eina tíð er nú aftur hafin sauðarækt í Möðrudal, en þá ganga sauðir sjálfala allan veturinn en hafa aðgang að heyi í beitarhúsum. Þetta er gömul hefð sem viðhöfð var í Möðrudal og þótti þetta bragðbesta kjötið.

Öllum búfénaði er slátrað á Vopnafirði og eru skrokkarnir teknir heim og vara til neytenda er fullunnin í vottaðri kjötvinnslu og reykhúsi Möðrudals. Reykingar aðferðir eru uppá gamla mátann í torfkofa þar sem tað og íslensk náttúra fá að njóta sín í bland. Vörurnar sendum við frá okkur í lofttæmdum umbúðum (vakúm), pökkuðum og vel frágengnum hvert á land sem er.